Innlent

Sefur rótt þótt Ármann sé hissa

Guðríður Arnardóttir
Guðríður Arnardóttir
Guðríður Arnardóttir, oddviti Samfylkingarinnar, gagnrýndi í bæjarráði Kópavogs á fimmtudag að ekki væri staðið við ákvörðun fyrri meirihluta í bænum um hækkun á framlögum til foreldra barna hjá dagforeldrum.

Fulltrúar meirihlutans svöruðu því til að þeirri upphæð sem væri á fjárhagsáætlun yrði varið í málaflokkinn en Guðríður sagði það algjörlega óeðlilegt þar sem börnin hefðu reynst fleiri en áætlað var. „Sambærilegt því er þegar fjöldi einstaklinga sem nýtur fjárhagsaðstoðar bæjarins verður meiri en ætlað er, þætti þá eðlilegt að lækka framlög til hvers og eins?“ spurði Guðríður.

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri úr Sjálfstæðisflokki, kvaðst þá undrandi á því að Guðríður, sem oddviti fyrrverandi meirihluta, skyldi bóka sérstaklega að farið skyldi fram úr fjárhagsáætlun sem hún stóð sjálf fyrir. „Hvað fjárhagsaðstoðina varðar þá eru sérstök lög þar um og því ekki samanburðarhæft,“ bókaði bæjarstjórinn.

Guðríður svaraði því þá til að ekki væri óeðlilegt að ræða fjárhagsaðstoð í þessu sambandi þar sem það sé ákvörðun sveitarfélaganna hversu há fjárhagsaðstoðin sé. „Annars má Ármann vera hissa fyrir mér – ekki missi ég svefn yfir því,“ sagði Guðríður.- gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×