Innlent

Starfsemin háð nýjum skilyrðum

Starfsemi Reiknistofunnar verður bundin skilyrðum samkvæmt samkomulagi eigenda og Samkeppniseftirlitsins.
Starfsemi Reiknistofunnar verður bundin skilyrðum samkvæmt samkomulagi eigenda og Samkeppniseftirlitsins. fréttablaðið/pjetur
Samkeppniseftirlitið hefur heimilað samruna Reiknistofu bankanna og Teris og gert samkomulag við eigendur Reiknistofu bankanna um skilyrði til að tryggja virkari samkeppni á fjármálamarkaði.

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, segir skilyrðin sem sett hafa verið um starfsemina mikið fagnaðarefni. Þau ryðji úr vegi eða dragi úr hættu á ýmiss konar samkeppnishindrunum.

Samkvæmt skilyrðunum eiga ný og smærri fjármálafyrirtæki að eiga fullan aðgang að öllum kerfum og þjónustu Reiknistofunnar á sömu forsendum og eigendur hennar, sem eru að stærstum hluta stóru bankarnir þrír. Reiknistofan verður áfram rekin sem sjálfstætt fyrirtæki á eðlilegum arðsemisgrundvelli. Þá eiga upplýsingatæknifyrirtæki að fá tækifæri til að keppa við Reiknistofu bankanna um viðskipti við fjármálafyrirtækin.

Fjármálafyrirtæki sem eru hluthafar í Reiknistofunni eiga að framkvæma útboð eða verðkönnun og leita hagstæðustu kjaranna. Þá er sett fram markmið um að draga úr eignarhaldi þeirra sem nú eiga Reiknistofu bankanna.

Tilnefndur verður óháður sérfræðingur til þess að hafa eftirlit með því að skilyrðin verði uppfyllt. - þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×