Innlent

Verne greiði ríkinu 220 milljónir

ESA hefur úrskurðað að undanþága sem Reykjanesbær veitti Verne hafi brotið gegn EES-samningnum.
ESA hefur úrskurðað að undanþága sem Reykjanesbær veitti Verne hafi brotið gegn EES-samningnum.
Verne gagnaver þarf að endurgreiða íslenska ríkinu 220 milljónir króna, samkvæmt ákvörðun ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA. Stofnunin segir að um ríkisaðstoð hafi verið að ræða sem brjóti í bága við EES-samninginn og gerir ríkinu að endurheimta féð.

Aðstoðin var veitt árið 2008 þegar Verne keypti fimm byggingar í gömlu herstöðinni við Keflavíkurflugvöll af ríkinu. Kaupverðið var undir markaðsvirði og ESA metur það sem ólögmæta ríkisaðstoð. Því beri fyrirtækinu að greiða 220 milljónir, sem er munur á kaupverði og markaðsverði. Þá telur ESA að undanþágur sem Reykjanesbær veitti árið 2009 frá fasteigna- og gatnagerðargjöldum séu einnig ósamræmanlegar EES-samningnum og þurfi að endurheimta féð frá Verne.

„Við sölu á fasteignum geta yfirvöld með einföldum hætti komist hjá því að veita ríkisaðstoð. Markaðsvirði er hægt að fastsetja annað hvort á grundvelli óskilyrts útboðs eða á grundvelli óháðs sérfræðimats. ESA mun ævinlega fara fram á endurheimtur á allri ótilkynntri ríkisaðstoð sem samræmist ekki EES-samningnum og veitt hefur verið í bága við skyldu yfirvalda til að bíða samþykkis ESA,“ segir Oda Helen Sletnes, forseti ESA.- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×