Innlent

Blíðan varnaði því að eldurinn bærist víðar

Eins og sjá má á þessari mynd er verkstæðið afskaplega illa farið eftir eldsvoðann.
Eins og sjá má á þessari mynd er verkstæðið afskaplega illa farið eftir eldsvoðann. Fréttablaðið/pjetur
Bílaverkstæði í Kópavogi gereyðilagðist í eldi. Mildi þykir að eldurinn hafi ekki náð að læsa sig í nálæg hús. Reykskemmdir urðu í nágrenninu og íbúar þurftu að loka gluggum og kynda heimili sín. Rannsókn er hafin á eldsupptökunum.

Bílamálunar- og réttingaverkstæðið Málningarverk við Vesturvör í Kópavogi gereyðilagðist í eldi í fyrrinótt.

Eldsupptök eru enn ókunn en lögreglan hefur hafið rannsókn á því hvað olli brunanum. Mikill eldsmatur var innandyra, meðal annars málningarlager.

Slökkvilið var kallað út rétt fyrir miðnætti á þriðjudag en slökkvistarf stóð þangað til á fjórða tímanum um nóttina.

Tvö fyrirtæki eru í húsum við hlið verkstæðisins og óttuðust slökkviliðsmenn um tíma að eldurinn bærist þangað. Meðal annars var notast við svokallaðan krabba áfastan vörubíl til að rjúfa þakið á húsinu og komast að glæðum.

Mikil mildi þykir að veður var gott, því að hefði verið hvasst þá hefði verið mun torsóttara að hefta útbreiðslu eldsins.

Reyk lagði í suður og austur yfir nágrennið og var íbúum í hverfinu ráðlagt að loka gluggum og kynda vel til að koma í veg fyrir að reykur bærist inn til þeirra.

Nokkrar reykskemmdir urðu í fyrirtækjunum tveimur sem standa við hlið verkstæðisins.

stigur@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×