Innlent

OR leiðrétti lækkun en borgin ekki

eiríkur hjálmarsson
eiríkur hjálmarsson Mynd/OR
Orkuveita Reykjavíkur (OR) leiðrétti þær lækkanir launa sem starfsmenn tóku á sig í janúar 2009 við lok þess árs. Eins og Fréttablaðið greindi frá í gær var sú ekki raunin með Reykjavíkurborg, en nú hafa þeir starfsmenn sem heyra undir ákvörðun kjararáðs fengið leiðréttinguna, en aðrir ekki.

Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi OR, segir að ákvörðunin hafi verið tímabundin til ársloka 2009. Þá hafi lækkanirnar gengið til baka, nema hjá stjórnarmönnum OR, en þeir hljóta enn sömu þóknun og eftir lækkun.

Starfsmannafélag Hafnarfjarðar hefur óskað eftir því að sambærileg lækkun sem starfsmenn bæjarins tóku á sig 2009 gangi til baka. Karl Rúnar Þórsson, formaður félagsins, vonast til þess að orðið verði við ósk félagsins.

„Við vonum að Hafnarfjörður ætli ekki að vera eftirbátur annarra bæjarfélaga og muni ekki að fara Reykjavíkurleiðina í þessu.“

Bæjarráð Hafnarfjarðar fól bæjarstjóra að endurskoða launakjör þeirra starfsmanna sem tóku á sig skerðingu. Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, segir að lækkunin muni ekki ganga til baka í heild sinni, heldur verði kjör hvers og eins skoðuð.

„Ýmsar forsendur hafa breyst og það hefur orðið stór skipulagsbreyting í stjórnsýslu sveitarfélagsins. Það þarf því að skoða hvern og einn starfsmann sérstaklega.“- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×