Innlent

Drottningin dregin í svaðið

Farmers Market er eitt þeirra fyrirtækja sem lætur meðal annars handprjóna peysur sínar erlendis.
Farmers Market er eitt þeirra fyrirtækja sem lætur meðal annars handprjóna peysur sínar erlendis. Fréttablaðið/ernir
Hópurinn Handverkskonur á milli heiða gagnrýnir harðlega að íslenskar lopapeysur séu framleiddar í Kína eða löndum með ódýru vinnuafli. Fjórar vikur eru síðan Fréttablaðið benti á að íslenskar lopapeysur væru í miklum mæli prjónaðar erlendis.

Fréttatilkynning frá handverkshópnum var birt á vef stéttarfélagsins Framsýnar í gær. Félagið mun á næstunni óska eftir upplýsingum um kjör og aðbúnað fólks sem framleiðir lopapeysur erlendis.

„Það kemur fram á peysunum að þær séu íslensk hönnun og úr íslenskri ull. En það kemur ekkert fram hvaðan þær koma. Mér finnst það alveg fyrir neðan allar hellur að menn merki vörur sínar þannig að kaupendur viti ekki að þetta er ekki framleitt á Íslandi,“ segir Aðalsteinn Á. Baldursson, formaður Framsýnar.

Ósk Ingadóttir, ein handverkskvennanna, vill vekja fólk til umhugsunar.

„Við gerum okkur grein fyrir því að við munum ekki stoppa innflutning á lopapeysum. En það er allt í lagi að við förum að hugsa um hvað við bjóðum gestum okkar upp á. Íslenska lopapeysan er drottningin okkar og með því að draga hana niður í gróðasvaðið er síðasta vígið fallið.“- ktg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×