Tónlist

Vel heppnuð endurkoma Stone Roses

Breska hljómsveitin The Stone Roses spilaði óvænt á sínum fyrstu tónleikum í sextán ár í bænum Warrington á Englandi fyrir skömmu. Sveitin hætti árið 1996 en í fyrra var tilkynnt um endurkomu hennar.

Um eitt þúsund manns mættu á tónleikana sem þóttu heppnast vel. „Þeir hafa aldrei spilað svona vel saman," sagði einn aðdáandinn í viðtali við BBC. Einhverjir kvörtuðu samt yfir rödd söngvarans Ians Brown sem þótti ansi rám.

Hljómsveitin spilaði öll sín bestu lög, þar á meðal I Wanna Be Adored, Waterfall og Love Spreads, sem sjá má í sígildu myndbandi sveitarinnar hér fyrir ofan. Engin ný lög fengu að hljóma í þetta sinn. Á meðal tónleikagesta var Liam Gallagher, fyrrum söngvari Oasis.

Fyrstu endurkomutónleikar The Stone Roses áttu að vera í Barcelona 8. júní. Tónleikar í Bretlandi voru ekki fyrirhugaðir fyrr en í lok júní. Þá er búist við 225 þúsund áhorfendum á þrenna tónleika í Heaton Park í Manchester, heimaborg sveitarinnar. Í framhaldinu ætla þeir félagar í tónleikaferð um heiminn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×