Innlent

Ótrúlegar tilviljanir við lífsbjörg í Laxá

f.v. Einar Óli Fossdal, Sigurður Smári sem lenti í ópappinu, Kári Kárason bjargvætturinn, sem kom fyrstur á vettvang og sonur hans hilmar Þór.
f.v. Einar Óli Fossdal, Sigurður Smári sem lenti í ópappinu, Kári Kárason bjargvætturinn, sem kom fyrstur á vettvang og sonur hans hilmar Þór.
Sigurður S. Garðarsson komst lífs af eftir að bíll hans valt og endaði á hvolfi ofan í Laxá á Ásum. Slökkviliðsmaður sá bílveltuna og kom honum til hjálpar. Faðir hans kom síðar að á sjúkrabíl. Rosalega gott að sjá pabba, segir Sigurður.

„Tildrög slyssins eru enn í móðu en ég man eftir því að ég lá á hvolfi í bílnum, fastur í öryggisbeltinu og með höfuðið ofan í vatninu. Ég náði að að koma höfðinu upp úr og öskraði svo á hjálp. Ég var í sjokki út af veltunni og kuldanum í ánni og var eiginlega búinn að gefast upp,“ segir Sigurður Smári Garðarsson, 24 ára Blönduósbúi, sem lenti í bílveltu við Laxá á Ásum í fyrrakvöld.

Röð tilviljana varð til þess að Sigurður komst lífs af úr jökulkaldri ánni. Bílinn lenti á ísrönd við árbakkann sem forðaði honum frá því að sökkva ofan í djúpan hyl. Sigurður var að mæta öðrum bíl þegar slysið varð. Svo vildi til að í hinum bílnum var Kári Kárason, framkvæmdastjóri og margreyndur slökkviliðsmaður, með syni sínum. Þeir feðgar stukku strax af stað til að bjarga Sigurði.

Annan bíl bar að skömmu síðar. Í honum var slökkviliðsstjórinn á Akureyri sem hóf strax björgunarstörf. Tveir sjúkrabílar frá Blönduósi voru síðan sendir á slysstað en í seinni bílnum var Einar Óli Fossdal, fósturfaðir Sigurðar.

„Það liðu bara örfáar sekúndur frá því að ég öskraði á hjálp þar til að Kári reif upp hurðina. Hann hélt undir höfuðið á mér enda var ég orðinn máttvana. Sonur hans náði að opna hurðina en komst ekki að bílbeltinu. Á endanum þurfti að skera mig lausan,“ segir Sigurður.

„Síðan kom slökkviliðsmaður og dró mig út úr bílnum og eftir það varð allt mjög ruglingslegt. Ég man þó að þegar þeir voru að bera mig í sjúkrabílinn sá ég pabba og þá áttaði ég mig á því hvað hafði gerst. Það var rosalega gott að sjá hann.“

Einar Óli, fósturfaðir Sigurðar, segir að aðkoman að slysinu hafi verið óhugnanleg. „Maður vonast alla daga til þess að þurfa ekki að koma að svona slysum. Þegar maður býr svo í svona litlu samfélagi er líka alltaf hætta á því að maður þekki þá sem eiga í hlut og það getur verið mjög erfitt – ekki síst þegar börnin manns eiga í hlut. Það er óhætt að segja að æðri máttarvöld hafi hjálpað honum.“

Sigurður Smári slapp ótrúlega vel úr veltunni og var útskrifaður af sjúkrahúsinu á Akureyri í gær. Hann segist vera ótrúlega þakklátur Kára og syni hans fyrir lífsbjörgina. „Kári vissi upp á hár hvað hann var að gera. Hann er þvílíkur nagli,“ segir Sigurður sem ætlar að launa honum greiðann. „Ætli ég gefi honum ekki gott faðmlag og flösku af einhverju eðalvíni.“

kristjan@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×