Innlent

Allt skal vera opið og sýnilegt

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Ögmundur Jónasson
Ögmundur Jónasson
Dráttur sem orðið hefur á afgreiðslu fyrirspurnar erlendra mannréttindasamtaka um fangaflug leyniþjónustu Bandaríkjanna skýrist að hluta af því að opinbera hlutafélagið Isavia fellur ekki undir upplýsingalög.

Félagið þurfti heimild ráðuneytis til að svara.

Verði að lögum nýtt frumvarp um upplýsingalög sem lagt var fyrir þingið í lok nóvember þá ná lögin yfir alla lögaðila sem eru í meira en helmingseigu ríkisins, auk einkaaðila sem sinna opinberu hlutverki stjórnvalds.

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, segist telja farsælast að Isavia heyri undir upplýsingalög og áréttar að honum hafi á sínum tíma þótt fráleitt að gera fyrirtækið að hlutafélagi. „Fyrst og fremst er þetta utanumhald utan um flugvelli landsins og grunnþjónustu,“ segir hann.

Rétt fyrir áramót heimilaði innanríkisráðuneytið Isavia að svara fyrirspurninni um fangaflugið. Ísland er í áfangaskýrslu mannréttindasamtakanna á svörtum lista landa sem ekki hafa enn svarað.

„Afstaða mín er mjög afdráttarlaus. Mér finnst að þetta þurfi allt að vera mjög opið og sýnilegt,“ segir hann.

„Ég vil að allt sé uppi á borðum í þessum efnum. Þeir sem ferðast eða flytja fólk eða varning í heiðarlegum tilgangi ættu ekki að þurfa að óttast neitt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×