Innlent

Biðst undan auknum verkefnum

Forseti bæjarstjórnar gefst upp á óánægju fulltrúa minnihlutans með tvöföldun starfshlutfalls forsetans.
Forseti bæjarstjórnar gefst upp á óánægju fulltrúa minnihlutans með tvöföldun starfshlutfalls forsetans.
„Það er ekki þess virði að berjast fyrir fyrirkomulagi sem kostar forseta fjárhagslegar fórnir og hugnast ekki nema helmingi bæjarstjórnar,“ segir Sigurborg Kr. Hannesdóttir, forseti bæjarstjórnar Grundarfjarðar, í bókun á síðasta fundi bæjarstjórnar þar sem hún baðst undan auknum starfsskyldum.

Sjálfstæðismenn í bæjarstjórninni sögðust ekki vita í hverju þau auknu verkefni væru fólgin sem urðu til þess fyrir um ári að laun forseta bæjarstjórnar voru tvöfölduð.

„Eins og berlega hefur komið í ljós þá fór þessi launahækkun verulega fyrir brjóstið á okkur, sérstaklega í ljósi þess að við höfum staðið vel við bakið á ykkur í þeim niðurskurði sem bæjarfélagið óhjákvæmilega hefur þurft að ganga í gegnum,“ bókuðu fulltrúarSjálfstæðisflokks.

Sigurborg, sem er fulltrúi meirihluta L-lista Samstöðu, sagði að með viðbótarverkefnum hafi vinna forseta farið upp í 40 til 50 prósenta starf á vetrarmánuðum. Laun bæjarstjórans hafi verið lækkuð sem nam viðbótargreiðslu til hennar.

„D-listi hefur ítrekað lýst óánægju sinni með þetta fyrirkomulag og bendir flest til þess að hann muni halda því áfram út kjörtímabilið,“ bókaði forsetinn sem baðst undan hinum auknu verkefnum. Hún kvaðst gera ráð fyrir að bæjarráð taki upp starfslýsingu og kjör bæjarstjóra. - gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×