Innlent

Hefðu fært gömlu húsin á Ingólfstorg

Gömlu húsin við Vallarstræti 4 og Aðalstræti 7 hefðu verið færð saman og inn á Ingólfstorg. Í staðinn er gert ráð fyrir að söluskálar við hinn enda torgsins fari og torgið stækki þeim megin.
Gömlu húsin við Vallarstræti 4 og Aðalstræti 7 hefðu verið færð saman og inn á Ingólfstorg. Í staðinn er gert ráð fyrir að söluskálar við hinn enda torgsins fari og torgið stækki þeim megin. Mynd/kanon arkitektar
Tillagan sem lenti í öðru sæti í samkeppni um Ingólfstorg og Kvosina gerði ráð fyrir því að gömul hús við Ingólfstorg yrðu færð inn á torgið og nýbygging kæmi í þeirra stað. Myndu líka byggja við Kirkjustræti og endurbyggja Nasa.

Allar verðlaunatillögurnar í samkeppni um Ingólfstorg og Kvosina gerðu ráð fyrir því að breyta Ingólfstorgi og nota hluta þess undir byggingar.

Tillagan sem lenti í öðru sæti í samkeppninni kom frá Kanon arkitektum. Í henni er gert ráð fyrir því að Landsímahúsið verði notað undir hótel og við það byggðar nýbyggingar bæði við Kirkjustræti, eins og í tillögu ASK arkitekta sem var í fyrsta sæti, og við Vallarstræti. Þá er gert ráð fyrir því, eins og í verðlaunatillögunni, að salurinn sem hýsir Nasa verði endurbyggður í svipaðri mynd. Einn veigamesti munurinn á tillögunum tveimur er að í tillögunni frá Kanon arkitektum er gert ráð fyrir því að húsin sem nú standa við Vallarstræti, Vallarstræti 4 og Aðalstræti 7, verði færð fram á Ingólfstorg og nýbygging verði byggð þar sem þau standa nú.

Í greinargerð Kanon arkitekta kemur fram að með því að færa húsin fram á Ingólfstorg sé verið að nýta skuggsælasta hluta þess til uppbyggingar. Í staðinn yrðu húsin við hinn enda torgsins, þar sem nú eru skyndibitastaður og ísbúð, fjarlægð. Þá myndi flutningurinn styrkja götumyndina og mynda heilsteypta umgjörð torgsins ásamt öðrum eldri húsum þar. Í tillögu Kanon er gert ráð fyrir nýbyggingu við Kirkjustræti, líkt og í tillögu ASK arkitekta. Húsið væri þó ekki hluti hótelsins.

Dómnefndin taldi það ókost við tillöguna að bygging hótelsins væri alfarið háð uppbyggingu á Ingólfstorgi og flutningi húsanna fram á torgið. thorunn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×