Innlent

Samþætta þarf ríki evrunnar enn frekar

Sólblóm við evrutáknið sem stendur við Seðlabanka Evrópu í Frankfurt í Þýskalandi.
Sólblóm við evrutáknið sem stendur við Seðlabanka Evrópu í Frankfurt í Þýskalandi. Fréttablaðið/AP
Forgangsmál er að rjúfa vítahring neikvæðrar þróunar banka, ríkja og vaxtarhorfa í löndum evrunnar. Þetta kemur fram í nýju áliti sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) birti í gær. Sjóðurinn kallar eftir enn nánara samstarfi og samþættingu á sviði efnahagsstjórnar í evrulöndunum 17, eigi þau að komast skaðlaust út úr núverandi efnahagsþrengingum.

Álit sjóðsins er hluti af reglubundinni skoðun á horfum og stefnu evrulandanna. Mahmood Pradhan, varaframkvæmdastjóri Evrópudeildar AGS, sagði á kynningarfundi í gær að evrusvæðið virkaði ekki sem skyldi. Hann benti á að á meðan löndum á borð við Þýskaland bjóðist langtímalánakjör sem séu rétt yfir einu prósenti, þar sem fjárfestar leiti öruggs vars fyrir peninga sína, þá eigi önnur evrulönd, svo sem Ítalía og Spánn, í vaxandi vandræðum með að selja skuldir sínar á viðráðanlegum kjörum. Langtímalánamarkaðir sé svo alveg lokaðir sumum öðrum evrulöndum, svo sem Grikklandi, Írlandi og Portúgal.

Í skýrslu sendinefndar sjóðsins er aðgerða sagt þörf á þremur sviðum til að rjúfa efnahagsvítahring evrusvæðisins. Efla þurfi bankakerfissamruna með samevrópsku tryggingakerfi innstæðna og stuðningskerfi, sem njóti stuðnings landanna allra og búi við sameiginlegt eftirlit. Eins þurfi aukna samþættingu efnahagsstjórnar í löndunum, með öflugra samstarfi ríkja og deildri ábyrgð og áhættu. Í þriðja lagi þurfi kerfisumbætur, jafnt í löndum sem skila afgangi og hinum sem rekin eru með halla, til þess að ýta undir vöxt og taka á innra ójafnvægi á svæðinu. - óká




Fleiri fréttir

Sjá meira


×