Innlent

Gefur svínum áfengi og lætur þau éta rusl

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Bjarni í Bjarnabúð í Reykholti hefur fundið góða leið til að spara sér kostnað við að farga sorpi og nýta það sem til fellur í búðinni og á heimilinu. Svínin sjá um sorpið, éta afgangana og skola þeim svo niður með einum svellköldum.

Í Reykholti rekur Bjarni Kristinsson litla verslun undir nafninu Bjarnabúð sem margir sem eiga leið um svæðið þekkja vel. Þá rekur hann einnig bú á Brautarhól þar sem fjölskyldan ræktar tómata og heldur hænur og kalkúna svo fátt eitt sé nefnt. Undanfarin sumur hefur Bjarni líka fengið tvo grísi á bæinn til að hjálpa við heimilishaldið.

„Svínin eru nú fyrst og fremst hugsuð til þess að nýta það sem að færi annars bara í ruslið og þyrfti að borga undir til Reykjavíkur með tilheyrandi kostnaði, því fannst okkur kjörið að nýta afgangana úr búðinni og það sem til fellur til þess að ala svín og slá margar flugur í sama högginu," segir Bjarni.

Hann segir það auðvitað vera vinnu að sjá um svínin en hún borgi sig að lokum.

„Það þyrfti að vera fyrr á vorin svo maður gæti notað flagið sem er eftir þau til að setja niður kartöflur og kál sem næstu svín myndu éta næsta sumar," segir Bjarni.

Og grísirnir eru í góðu yfirlæti á búinu og þamba meðal annars bjór af bestu lyst. „Svona þegar það koma gestir þá fá þau bjór til samlætis," segir Bjarni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×