Innlent

Kallað á gjaldtöku vegna skipakomu

Sævar Skaptason
Sævar Skaptason
Hugmyndir eru uppi um að leggja sérstakt gjald á farþega skemmtiferðaskipa sem rynni til umbóta í umhverfismálum.

Sævar Skaptason, framkvæmdastjóri Ferðaþjónustu bænda, segir gistináttagjald í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða ásamt framlögum Ferðamálastofu til úrbóta í umhverfismálum, samtals um 150 milljónir króna, hvergi nærri hrökkva til að hlúa að auðlindinni sem dregur fólk til landsins.

Á aðalfundi Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF) á fimmtudaginn benti Sævar á að í sumar væri von á 100.000 farþegum skemmtiferðaskipa til landsins. 500 króna gjald á hvern myndi þýða um 50 milljóna króna viðbótartekjur.

Gunnar Rafn Birgisson, framkvæmdastjóri og eigandi Atlantik, sem sérhæfir sig í móttöku skemmtiferðaskipa, telur hins vegar hæpið að taka með þessum hætti út einn hóp ferðamanna. „Eigi að leggja á umhverfisskatta þá eiga þeir að leggjast jafnt á alla, sama hvort þeir koma til landsins með flugi eða skipum.“

Gunnar Rafn segir vert að hafa í huga að aukin skattheimta af ferðamönnum kunni að draga úr áhuga þeirra á að sækja landið heim. „Aukin skattheimta þýðir ekki endilega meiri tekjur.“

Hins vegar telur Gunnar eðlilegt að hluti skatttekna ríkisins af ferðaiðnaði renni til þess að byggja upp ferðamannastaði. Þannig mætti til dæmis með betra skipulagi og bættri aðstöðu á „gullna hringnum“ svokallaða dreifa álagi á staðina.

- óká




Fleiri fréttir

Sjá meira


×