Innlent

Farsímar meira notaðir í útlöndum

Sífellt meiri útbreiðsla snjallsíma er ein helsta ástæða þess að netnotkun í símum Íslendinga hefur aukist mikið á síðustu misserum.
Fréttablaðið/Valli
Sífellt meiri útbreiðsla snjallsíma er ein helsta ástæða þess að netnotkun í símum Íslendinga hefur aukist mikið á síðustu misserum. Fréttablaðið/Valli
Netnotkun Íslendinga á ferðalögum erlendis í gegnum farsíma hefur aukist gríðarlega á síðustu misserum.

Ódýrari þjónusta og mikil fjölgun snjallsíma eru helstu aflvakar aukningarinnar en nýverið varð mikil lækkun á verði á netþjónustu í símum á EES-svæðinu.

Netnotkun í símum íslenskra viðskiptavina Símans á ferðalögum erlendis hefur ríflega tvöfaldast á tveimur árum. Jókst hún um 36 prósent á milli áranna 2010 og 2011 og svo aftur um 68 prósent á milli 2011 og ársins í ár sé miðað við fyrstu sjö mánuði ársins.

Telja má líklegt að þessi þróun haldi áfram á næstu mánuðum því 1. júlí síðastliðinn tók gildi ný reglugerð Evrópusambandsins um lækkun á reikiverði fyrir gagnaflutning, símtöl og SMS innan EES-svæðisins.

Mest var lækkunin á reikiverði gagnaflutninga sem nam um fimmtíu prósentum.

Danskir fjölmiðlar hafa greint frá því að netnotkun Dana á ferðalögum um EES-svæðið hafi aukist merkjanlega í kjölfar gildistöku reglugerðarinnar.

Ef marka má tölur frá Símanum og Vodafone á Íslandi hafa íslenskir ferðalangar ekki brugðist jafn skjótt við verðbreytingunum þar sem netnotkun í símum Íslendinga á ferðalögum erlendis jókst ekki merkjanlega í mánuðinum miðað við mánuðinn á undan. Langtímaþróunin er þó skýr og hefur netnotkun í símum Íslendinga erlendis einungis einu sinni verið meiri en í júlí og var það í mánuðinum á undan.

- mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×