Innlent

Með lífshættulega áverka eftir hnífstungu

Hæstiréttur Íslands hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að karlmaður sæti gæsluvarðhaldi til 9. ágúst vegna gruns um að hafa stungið annan mann með hnífi. Fórnarlambið hlaut lífshættulega áverka á brjóstkassa.

Síðastliðið laugardagskvöld fékk lögreglan tilkynningu um að maður lægi meðvitundarlaus á gangstétt í Reykjavík. Samkvæmt fyrstu upplýsingum frá vitnum hafði maðurinn verið stunginn með hnífi og árásarmaðurinn, eða mennirnir, hlaupið á brott. Maðurinn var fluttur á slysadeild með lífshættulega sýnilega skurði á baki og síðu. Þrír voru handteknir fljótlega eftir árásina.

Einn af mönnunum viðurkenndi í skýrslutöku hjá lögreglu að hafa lent í slagsmálum við manninn þar sem hnífi hafi verið beitt og hann hafi flúið af vettvangi þegar hann sá lögregluna. Lögreglan telur sig hafa fundið hnífinn í íbúð sem maðurinn var handtekinn í en rannsóknin sé á viðkvæmu stigi og því sé æskilegt að sá grunaði sæti einangrun í gæsluvarðhaldinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×