Innlent

Sautján ára og synti tvöfalt Viðeyjarsund

Karen Kjartansdóttir skrifar
Sautján ára gömul sjósundskona synti tvöfalt Viðeyjarsund í gærkvöldi. Hún stefndi á að synda Ermasundið í september en varð að fresta því vegna meiðsla.

Hún Írena Líf Jónsdóttir úr Reykjanesbæ segist hafa fallið fyrir sjósundi í fyrsta sinn sem hún reyndi fyrir sér í þeirri íþrótt fyrir um tveimur árum.

„Ég fór nokkrum sinnum árið 2010, en svo tók ég þetta fyrir alvöru árið 2011," segir Írena. Hún segist fyrst hafa farið út í vegna áeggjan vinkonu móður sinnar. "Ég er búin að vera æfa sund í nokkur ár, svo dró vinkona mömmu mig út í þetta og ég hef ekki hætt síðan.

Móðir Írenu kann þessari vinkonu sinni líklega litlar þakki fyrir að hafa drifið dóttur sína í sjósund.

„Pabbi er yfirleitt á bátnum þannig honum finnst þetta í lagi en mamma er ekki alveg jafn kát með þetta. Hún er stundum svolítið áhyggjufull," segir Írena.

Hér má sjá Írenu skella sér út í Reykjavíkurhöfn fyrir fréttamann. Einhvern kann að hrylla við að stökkva út í kaldan sjóinn. Fyrir Írenu er þetta hins vegar lítið mál. Enda synti hún út í Viðey í gær, fékk sér að drekka án þess að stíga á land og synti svo aftur til Reykjavíkurhafnar en alls tók sundið hana um þrjár klukkustundir.

Ertu bara ónæm fyrir kulda? „Nei það getur ekki verið en ég þarf að vera lengi ofan í svo ég finni fyrir honum."

En hún ætlar sér stærri hluti. Til dæmis stefndi hún á að synda Ermasundið í september og hafði fengið leyfi til þess að fara. Því varð hún þó að fresta vegna meiðsla sem hún hlaut í vetur en hún ætlar sér yfir sundið við fyrsta tækifæri.

Áttu einhverja jafnaldra sem synda með þér? „Nei ekki eins og er en það er svolítið að koma."

Í það minnsta líta yngri systkini Írenu mjög upp til stóru systur og ætla sér einnig að reyna fyrir sér í því fljótlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×