Innlent

Ferðamenn prjóna þríhyrnur

Ásdís Birgisdóttir og Margrét Linda Gunnlaugsdóttir, eigendur Lopa og bands, sjá um Norrænu prjónaráðstefnuna.
Ásdís Birgisdóttir og Margrét Linda Gunnlaugsdóttir, eigendur Lopa og bands, sjá um Norrænu prjónaráðstefnuna.
Norræn prjónaráðstefna er nú haldin í Hjálmakletti í Borgarnesi en eigendur blaðsins Lopa og bands standa að viðburðinum.

Hátt í 120 gestir sækja ráðstefnuna og er áætlað að um níutíu manns hafi komið til landsins til að sækja atburðinn. Flestir gestanna eru frá Norðurlöndunum, en einnig eru nokkrir frá Kóreu, Japan, Bretlandi og Kanada.

Á ráðstefnunni er lögð áhersla á að kynna íslenska prjónahefð.

„Við erum til dæmis að kynna hvernig þríhyrnur og langsjöl eru prjónuð, hvernig gera á skagfirska útsaumaða vettlinga og einnig vestfirska vettlinga sem eru útprjónaðir. Svo bjóðum við einnig upp á námskeið í rósaleppaprjóni og hvernig gera eigi slyngda leppa svo fátt eitt sé nefnt,“ segir Ásdís Birgisdóttir, annar eigandi Lopa og bands.

Alls eru um sextán námskeið í boði og fjöldi fyrirlestra.

Ráðstefnan stendur fram á laugardag en á fimmtudaginn verður haldið prjónakaffi á staðnum þar sem Vivian Höxbro pjónahönnuður mun halda fyrirlestur og er viðburðurinn opinn öllum. - ktg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×