Innlent

Maður getur tjáð næstum allt gegnum fiðluna

Erla Hlynsdóttir skrifar
Fjórtán ára fiðluleikari segir einstakt hvernig hægt er að tjá tilfinningar sínar með fiðlunni. Hún hefur tekið þátt í Tónlistarhátíð unga fólksins frá upphafi, en hátíðin var sett í þriðja sinn í dag.

Síðast tóku um hundrað tónlistarnemar þátt allt frá níu ára aldri Þetta eru tónlistarnemar alls staðar af landinu, og jafnvel erlendis frá.

Agnes Jórunn byrjaði sex ára að spila á fiðlu. Þetta er í annað sinn sem hún tekur þátt í hátíðinni.

„Þetta er svona hátíð bara fyrir ung tónlistarfólk sem fær tækifæri til að koma fram. Svo er líka hægt að taka þátt í strengjasveit. Maður lærir bara fullt á þessu. Þetta er skemmtilegt," segir Agnes

Hátíðin var sett í Salnum í Kópavogi í morgun, en er haldin í fjölda bygginga þar um kring, meðal annars í tónlistarskóla Kópavogs.

„Svo fær maður verkum úthlutað sem eru oftast mjög skemmtileg. Svo líka bara félagslíf. Það er gaman að vera með mismunandi krökkum," segir Ari Hörður Friðbjarnarson, þverflautuleikari.

Tónlistarhátíðinni er meðal annars ætlað að fylla upp í það tómarúm sem myndast á sumrin í tónlistarkennslu.

Alma Katrín var rétt orðin fimm ára þegar hún byrjaði að læra og man því varla af hverju hún valdi fiðluna.

„Ég held það hafi verið því maður getur tjáð sig svo mikið í gegnum fiðluna. Alveg sama hvernig manni líður, það er alltaf eitthvað lag, eitthvað stef eða einhver æfing sem getur tjáð hvernig manni líður. Ef maður er eitthvað sár þá getur maður fundið eitthvað fallegt lag og hlustað eða spilað það. Það er líka svo gaman að hlusta á verkin áður en maður byrjar að spila þau," segir hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×