Lionel Messi kom af varamannabekknum og skoraði tvívegis í 3-1 útisigri Barcelona á Getafe í fjórðu umferð efstu deildar spænsku knattspyrnunnar í kvöld.
Brasilíumaðurinn Adriano kom gestunum yfir með góðu skoti úr teignum á 32. mínútu eftir góðan undirbúning Cesc Fabregas.
Messi kom inná fyrir Thiago eftir stundarfjórðungsleik í síðari hálfleik. Hann skoraði úr vítaspyrnu á 74. mínútu og bætti við marki af stuttu færi fjórum mínútum síðar.
Varamaðurinn Pablo Sarabia minnkaði muninn fyrir heimamenn skömmu síðar með skoti utan teigs sem hafði viðkomu í bæði Adriano og Javier Mascherano.
Það var svo David Villa sem kórónaði flottan sigur gestanna í uppbótartíma með snyrtilegu marki eftir frábæra sendingu frá Xavi.
Barcelona er efst í deildinni með fullt hús stiga eða tólf stig. Getafe er um miðja deild með fjögur stig.
Messi varamaður en skoraði tvö | Barcelona með fullt hús
Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
