Innlent

Rasandi hissa yfir ummælum Ögmundar

BBI skrifar
Illugi Jökulsson
Illugi Jökulsson
Illugi Jökulsson krefst skýringa á ummælum sem höfð voru eftir Ögmundi Jónassyni á dv.is í gær. Við samsæti til heiðurs Karli Sigurbjörnssyni, fráfarandi biskupi, á Ögmundur að hafa sagt að undanfarið hefðu „árásargjarnir menn vegið grimmilega að kirkjunni og rofið samstöðu kirkju og þjóðar."

Illugi segist eiginlega ekki trúa að Ögmundur hafi sagt þetta og vill fá að vita hvort rangt hafi verið haft eftir Ögmundi og ef ekki hvaða skýringar liggi þarna að baki. Kirkjan hefur átt undir högg að sækja undanfarið, ekki síst eftir að mál Ólafs Skúlasonar komust í hámæli. „Fækkað hefur í kirkjunni og mörgum hefur þótt þeir eiga litla samleið með henni," segir Illugi á bloggi sínu.

Ekki náðist í Ögmund Jónasson við gerð þessarar fréttar.

Viðbót klukkan þrjú

Ögmundur svaraði vangaveltum Illuga á heimasíðu sinni í dag. Hann segir að vissulega sé rétt eftir honum haft. Hann segir að honum finnist umræða um kirkjunnar mál síðustu misseri öfgafull og telur ekki að hann þurfi að standa Illuga reikningsskil vegna þeirrar afstöðu.

Hann segir að þó hann hafi látið ummælin falla sé þetta ekki öll skýringin á vandræðum kirkjunnar. Það sem fyrir honum vaki sé að styrkja hófsemdaröfl í trúarumræðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×