Innlent

Hélt konu nauðugri í tvær klukkustundir

BBI skrifar
Ólafsfjörður
Ólafsfjörður
Eftir að hafa stungið kunningja sinn fjórum sinnum með litlum hníf ruddist karlmaður á þrítugsaldri óboðinn inn í íbúð á Ólafsfirði. Þar var ein kona fyrir sem hann varnaði útgöngu, hélt þar fanginni í um tvo tíma og kom í veg fyrir að hún hringdi á lögreglu. Atvikin áttu sér stað á aðfararnótt laugardagsins.

Rannsóknarlögreglan á Akureyri hefur málið til rannsóknar, en áður en maðurinn svipti konuna frelsi í heimahúsi hennar hafði honum lent upp á kant við kunningja sinn, eins og Vísir greindi frá á laugardaginn. Þeim deilum lauk með því hann stakk kunningja sinn með hníf og flúði af vettvangi. Þaðan hélt hann rakleitt í hús vinafólks síns og ruddist þar óboðinn inn samkvæmt heimildum Vísis innan lögreglunnar. Þar var konan fyrir.

Að sögn konunnar óttaðist hún um líf sitt enda fylgdi maðurinn henni hvert fótmál eða dró hana á milli staða svo að hann sæi hana. Um síðir tókst konunni að komast afsíðis og náði að hringja í lögreglu. Hún slapp ómeidd út úr íbúð sinni en var að eigin sögn í miklu andlegu ójafnvægi.

Að sögn lögreglu hefur maðurinn þegar verið úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna málsins. Hann er lögreglu góðkunnur vegna óreglu sinnar. Hann verður að líkindum ákærður fyrir annars vegar sérlega hættulega líkamsárás og hins vegar frelsissviptingu, því þó hann hafi ekki gert konunni neitt mein varðar við lög að halda henni fanginni í tvo tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×