Innlent

Vanhugsað að hækka gistináttaskatt

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Sú hugmynd að hækka gistináttarskatt úr 7% í 25,5% er vanhugsuð og hún mun hamla framþróun í ferðaþjónustu á komandi árum, segir Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins.

„Það eru gríðarlega mikil sóknarfæri í ferðaþjónustu á komandi árum og margir sem hafa lagt mikið undir að byggja upp þessa starfsemi," segir Höskuldur. Hann segir að skattahækkun á gistingu geti sett þá uppbygginu í voða og rýrt þann tekjustofn. „Það eru ótrúleg sóknarfæri sem felast í ferðaþjónustu hringinn í kringum landið. Það eru margir óbeinir skattar lagðir á og það að hækka þennan skatt getur gert það að verkum að við missum tækifærið sem við erum nú með í hendinni," segir Höskuldur.

Höskuldur bendir á að ferðamennska sé atvinnugrein í vexti og þarna liggi sóknartækifæri landsins alls. „Við eigum frekar að ýta undir og styðja þangað til atvinnugreinin nær föstum rótum. Þá sjáum við hvað menn hafa aflögu en að grípa inn í með skattahækkunum á miðju uppbyggingarstigi er vanhugsuð og röng aðferðarfræði," segir Höskuldur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×