Innlent

Baráttan fyrir fækkun dauðaslysa skilar árangri

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Umferð í miðbæ Reykjavíkur.
Umferð í miðbæ Reykjavíkur. mynd/ valli.
Ísland er fimmta landið í röð þeirra sem eru með lægstu dánartíðni í umferðinni þegar tíðnin er borin saman við 28 önnur Evrópulönd. Þetta sýnir ný athugun sem Umferðarstofa segir frá.

Samkvæmt útreikningum Umferðarstofu létust að jafnaði 40,6 einstaklingar í umferðinni á Íslandi á hverja milljón íbúa á tímabilinu. Best er þó staðan í Hollandi en þar létust aðeins 37,6 einstaklingar, en á eftir þeim kemur Bretland með 38,8, Svíþjóð með 39, Malta með 39,8 og síðan Ísland með 40,6 eins og fyrr sagði. Í Litháen létust 131,8 einstaklingar á hverja milljón íbúa en þar er fjöldi fórnarlamba mestur. Athugað var meðaltal fimm ára tímabils, 2007-2011.

Þegar þessar tölur eru skoðaðar nánar kemur í ljós mikill árangur á undanförnum 5 árum í fækkun banaslysa í flestum Evrópulöndum. Ef skoðuð eru 5 ár á undan fyrrnefndum samanburðartíma kemur í ljós að á tímabilinu 2002 til 2006 létust að meðaltali 84,4 einstaklingar á hverja milljón íbúa hér á landi eða rúmlega helmingi fleiri en fimm ára tímabil þar á eftir, frá 2007 til 2011.

Þótt sjá megi lækkun dánartíðni í flestum öðrum Evrópulöndum þá er árangurinn mun meiri hér á landi en hjá flestum öðrum Evrópulöndum þar sem Ísland hefur færst úr níunda sæti upp í það fimmta. Innan Evrópusambandsins lést að jafnaði 71,4 á hverja milljón íbúa. Það er því ljóst að árangurinn í umferðaröryggismálum er umtalsverður hvað banaslys varðar hér á landi. Þær Evrópuþjóðir þar sem fæstir látast í umferðinni eru öllu jöfnu með lægstu tíðni banaslysa á heimsvísu og því má leiða getum að því að dánartíðnin hér á landi sé með því allra lægsta sem þekkist.

Þrátt fyrir þennan árangur eru dauðsföll hér á landi af völdum umferðarslysa ein algengasta dánarorsök ungs fólks á aldrinum 16 - 24 ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×