Innlent

Hafnarfjörður gerir auknar kröfur til dýraeigenda

BBI skrifar
Hafnarfjarðarbær setti sér í gær samþykkt um húsdýrahald og gæludýrahald fyrir bæjarfélagið. Að sögn Guðmundar H. Einarssonar, framkvæmdastjóra heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar, er þetta víðtækasta samþykkt sinnar tegundar sem sett hefur verið á landinu öllu.

Með samþykktinni eru settar reglur um dýrahald í bæjarfélaginu. Eitt helsta nýmælið, að sögn Guðmundar, er að þeir sem halda dýr í þéttbýli taki fulla ábyrgð á þeim og eigi að passa þau. „Það hefur t.d. verið sett lausagöngubann víðsvegar um landið en yfirleitt er á ábyrgð sveitarfélagsins að framfylgja því," segir Guðmundur. Með nýju samþykktinni eiga eigendur dýranna að fylgja reglunum og bera kostnað af því.

Guðmundur veit ekki betur en þetta sé fyrsta samþykktin á landinu sem nær til allra dýrategunda í þéttbýli. „Menn hafa verið að setja reglur um hunda- og kattahald," segir hann og vill meina að þessi víðtæka samþykkt sé svar við ákalli nýrra tíma þar sem dýrahald í borg er komið í tísku.

Markmið bæjarstjórnar Hafnarfjarðar með samþykktinni er að tryggja öryggi, hollustuhætti, góða umgengni og fullnægjandi mengunarvarnir vegna húsdýrahalds og almenns gæludýrahalds í Hafnarfirði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×