Innlent

Fagnar umræðu um Landssímahúsið

Dagur B. Eggertsson, formaður Borgarráðs.
Dagur B. Eggertsson, formaður Borgarráðs.
„Við verðum að tryggja það að sýndur verði metnaður við skipulagningu á Landssímareitnum." Þetta segir Dagur B. Eggertsson, formaður Borgarráðs.

Fréttablaðið greinir frá því í dag að Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingi, sé afar ósátt með framtíðarhorfur Kirkjustrætis og Landssímahússins. Hún segir þessar nýju byggingar þrengja verulega að þinginu. Þá hefur hún einnig áhyggjur af skuggamyndunum sem hún telur að muni fylgja í kjölfar nýbygginganna.

Dagur telur að áframhaldandi umræða um Austurvöll sé af hinu góða. Hann bendir þó á að umræðan um reitinn sé ekki ný, skipulag hafi staðið yfir í 26 ár.

„Það er í raun ekki verið að bæta miklu við. Það er fyrst og fremst verið að breyta þeirri starfsemi sem er í þessu húsi. Í staðinn fyrir skrifstofugardínur í Landssímahúsinu koma hótelgardínur. Og í staðinn fyrir líflausan skrifstofuvegg sem snýr út að Austurvelli er gert ráð fyrir opnum veitingastað á jarðhæð."

mynd/Reykjavík
Þá furðar Dagur sig á áhyggjum Ástu Ragnheiðar af skuggamyndunum og bendir á að Alþingi sé sjálft með metnaðarfull áform um uppbyggingu á skrifstofuhúsnæði.

„Þessar byggingar sem eru á Landssímareitnum eru norðanmegin við Alþingisreitinn. Þegar sólin skín úr suðri munu nýbyggingarnar sem Alþingi sjálft hefur fengið leyfi fyrir varpa skugga á hótelið, ekki öfugt."

Reykjavíkurborg hefur nú verið greint frá athugasemdum Alþingis og forsætisnefnd mun fjalla um málið á næstu vikum. En hver er staða mála í borginni?

„Núna liggur niðurstaða samkeppninnar fyrir. En hið formlega skipulagsferli er eftir. Það verða opnir fundir fyrir alla íbúa um þetta mál í lok ágúst eða byrjun september."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×