Innlent

Huga að gröfum hermanna sem féllu í heimsstyrjöldunum

Höskuldur Kári Schram skrifar
Sérstök nefnd sem passar upp á að vel sé hugsað um grafir þeirra hermanna sem féllu í heimsstyrjöldunum kom til Íslands í dag til skoða hermannagrafreitinn í Fossvogskirkjugarði. Nefndarmenn heimsækja tugi landa á hverju ári.

Nefndin var stofnuð í Bretlandi árið 1917 þegar fyrri heimsstyrjöldin stóð sem hæst en markmið hennar er að halda utan um grafir hermanna frá Bretlandi og bresku samveldislöndunum.

„Í 153 löndum eru grafir manna frá Samveldislöndunum, ekki bara Bretlandi, sem fórust í báðum heimsstyrjöldunum. Heildarfjöldi látinna sem við berum ábyrgð á er 1,7 milljónir manna," segir Sir Alistair Irwin, framkvæmdastjóri CWGC.

Hátt í tvö hundruð hermenn frá Bretlandi og bresku samveldislöndunum eru grafnir á íslandi en stærsti grafreiturinn er í Fossvogskirkjugarði. Alistair segir að nefndarmenn finni fyrir miklu þakklæti frá ættingjum fallinna hermanna.

„Það geta ekki allir heimsótt tiltekna gröf í tilteknum kirkjugarði því sumar þeirra eru á afar afskekktum stöðum," segir Sir Irwin. „En fólk vill vita að það sé hugsað um þær og það getur fundið ýmsar upplýsingar á vefsíðunni okkar. Og það er það sem fólk gerir. Það fer mikið inn á vefsíðuna okkar."

Legsteinarnir eru misjafnir að lögun og ýmislegt má lesa út úr því.

„Þessi lögun, þú sérð að hún er öðruvísi að því leyti að það er hoggið úr hérna, sýnir að þetta er ekki stríðsgröf. Þótt þessi maður, Wilson skipasmiður, hafi dáið í slippnum hérna 1943 var hann ekki í einkennisbúningi, hann hefur verið óbreyttur borgari sem vann í slippnum og sennilega hefur hann dáið af eðlilegum orsökum og þess vegna fær hann ekki stríðsgröf,

en af því að hann var á stríðssvæði var hann grafinn hér og legsteinninn auðkenndur með því að taka úr brúninni hérna."

Alister var sáttur við ástand legsteina og umhirðu í Fossvogskirkjugarði.

„Þetta er ekki bara spurning um að horfa á mjög marga legsteina og segja að það sé vel litið eftir þeim," segir Sir Irwin. „Því hver einasti þessara manna var einstaklingur sem átti fjölskyldu og sem átti vonir og væntingar um framtíðina, vildi giftast eða hvaðeina. Þeir létust fyrir aldur fram með afleiðingum fyrir fjölskyldur þeirra sem syrgðu þá. Við sem komum að þessu reynum að muna að þetta snýst ekki um tölur heldur um margt fólk."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×