Erlent

Mauramaðurinn rústaði heimilinu

Hjón, búsett nærri Köln í Þýskalandi, eru orðin heimilislaus eftir að þau kölluðu til meindýraeyði vegna vandamáls með maura í húsinu. Hjónin byggðu húsið sitt fyrir tveimur árum síðan, en sífelldur ágangur maura innandyra fór í taugarnar á þeim.

Meindýraeyðirinn kom á vettvang og hjónin brugðu sér frá á meðan hann sinnti vinnu sinni. Þegar þau komu til baka sáu þau að maðurinn hafði notað svo mikið af eitursprengjum að veggfóðrið lak niður veggina, myndir voru dottnar niður, og andrúmsloftið inn í húsinu var augljóslega mengað.

Sérfræðingur var kallaður til sem skar úr um að eitrið hefði drukkið sig inn í veggi hússins og því væri það algjörlega óíbúðarhæft.

Hjónin komust siðar að því að meindýraeyðirinn, sem þýskir fjölmiðlar kalla mauramanninn, reyndist vera áhugamaður um starfið, og full metnaðarfullur að auki. Hann kunni semsagt ekkert að eitra fyrir maurum.

Þýskir fjölmiðlar sögðu frá því að húsið hefði verið rifið í dag að undanskildum kjallaranum sem verður rannsakaður frekar af ótta um að jarðvegurinn undir honum sé einnig hættulega eitraður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×