Innlent

Íslendingar á villigötum í stjórnarskrármálinu

BBI skrifar
Ágúst Þór Árnason er formaður lagadeildar Háskólans á Akureyri.
Ágúst Þór Árnason er formaður lagadeildar Háskólans á Akureyri.
Fræðimennirnir Ágúst Þór Árnason og Skúli Magnússon telja Íslendinga á villigötum við endurskoðun á stjórnarskrá lýðveldisins. Í dag birtist grein eftir Skúla í Fréttablaðinu um skoðun þeirra félaga á málinu. Þar kemur fram að þeir hafa sett fram tillögu að endurskoðaðri stjórnarskrá sem finna má á heimasíðunni stjornskipun.is.

Of mikill hraði

Í Rannsóknarskýrslu Alþingis kemur meðal annars fram að lagasetning á Íslandi hafi oft og tíðum verið óvönduð. Það er átalið í skýrslunni. „Og endurnýjun stjórnarskrár er lagasetning sem ber að vanda sérstaklega til," segir Ágúst.

„Ef við tökum Norðmenn sem dæmi. Þeir ákváðu fyrir fimm árum að fara í endurskoðun á sinni 200 ára gömlu stjórnarskrá. Stefnan er sú að breytingarnar komist í gegn árið 2014. Og þeir eru þó aðeins að endurskoða einn kafla í stjórnarskránni," segir Ágúst. Þannig taka Norðmenn sér nokkur ár í að endurskoða mannréttindakafla stjórnarskrárinnar en þann kafla höfum við Íslendingar þegar endurskoðað.

Ágúst telur að asinn sé of mikill á Íslandi, en hér fékk stjórnlagaráð fáeina mánuði til að vinna að endurskoðun á stjórnarskránni. Sá tími hefði hugsanlega dugað til að vinna tillögu að breytingu á afmörkuðum þætti hennar. „Stjórnarskrár skipta víðast hvar á Vesturlöndum miklu máli. Það er tekið mark á þeim og dæmt eftir því sem stendur í þeim, Ísland er þar engin undantekning" segir Ágúst.

Skúli Magnússon hefur starfað sem ritari við EFTA dómstólinn að undanförnu.
Gerbreyting

Þegar lög fá að standa um nokkurt skeið skapast festa í dómaframkvæmd. Þannig verður smátt og smátt skýrara hvað felst í lögunum, hvað þau þýða. Þar sem stjórnarskráin hefur fengið að standa í hart nær 70 ár er fyrirsjáanleiki dóma sem byggja á ákvæðum hennar verulegur. Ágúst segir að hver smávægileg breyting geti kallað á óvissu, hvað þá ef farið er út í það að umbylta stjórnarskránni í heild sinni.

„Við teljum að það eigi ekki að fara út í róttækar breytingar á stjórnarskránni án þess að leggjast í víðtækar rannsóknir á þörfinni á slíkri aðgerð. Það er eiginlega lykilatriði," segir Ágúst. Hann bendir á að tillögur þeirra Skúla séu ekki hugsaðar sem fullbúin stjórnarskrá. Tilgangur þeirra sé fyrst og síðast að hvetja til umræðu um endurskoðun stjórnarskrárinnar.

Ekki að hnýta í stjórnlagaráð

Ágúst tekur fram að skrifum þeirra sé ekki beint gegn stjórnlagaráði. „Vinna þeirra sem áttu sæti í ráðinu stendur fyrir sínu. Við erum ekki að draga úr mikilvægi stjórnlagaráðs og þeirra hugmynda sem þar komu til umræðu. Við teljum bara að þar sé um eitt skref í lengri vegferð að ræða" segir Ágúst.

Ágúst og Skúli eru báðir virtir fræðimenn á sviði lögfræði.


Tengdar fréttir

Tillögurnar eru ný útfærsla af gömlu stjórnarskránni

Eiríkur Bergmann, stjórnlagaráðsmeðlimur, tekur nýjum tillögum Skúla Magnússonar og Ágústs Þórs Árnasonar til stjórnskipunarlaga fagnandi. Hann telur þó að tillögur þeirra séu í raun aðeins ný útfærsla af núverandi stjórnarskrá landsins.

Aðrar tillögur til nýrrar stjórnarskrár

Tveir fræðimenn lögðu í dag fram nýjar heildstæðar tillögur til stjórnarskrár fyrir Ísland. Frumvarpið er hugsað sem „valkostur í stjórnarskrármálinu" og skrifa tvímenningarnir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×