Innlent

Aðrar tillögur til nýrrar stjórnarskrár

BBI skrifar
Skúli Magnússon og Ágúst Þór Árnason.
Skúli Magnússon og Ágúst Þór Árnason.
Tveir fræðimenn lögðu í dag fram nýjar heildstæðar tillögur til stjórnarskrár fyrir Ísland. Frumvarpið er hugsað sem „valkostur í stjórnarskrármálinu" og skrifa tvímenningarnir grein í Fréttablaðið og Vísi til að kynna það.

Fræðimennirnir heita Skúli Magnússon og Ágúst Þór Árnason. Þeir telja að frumvarp stjórnlagaráðs feli í sér of róttækar breytingar á stjórnarskránni. Þeir sáu sig því knúna til að birta heildstætt frumvarp til nýrrar stjórnarskrár sem gengur ekki jafnlangt. Hugmyndin þeirra er birt í heild sinni á heimasíðunni stjornskipun.is.

Frumvörpin eru því orðin tvö, en eins og kunnugt er hefur innanríkisráðuneytið auglýst ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um frumvarp stjórnlagaráðs. Hún mun fara fram 20. október og er utankjörfundaratkvæðagreiðsla þegar hafin.

Skúli og Ágúst eru báðir virtir fræðimenn. Skúli hefur starfað að undanförnu sem ritari við EFTA dómstólinn. Ágúst Þór er formaður lagadeildar Háskólans á Akureyri. Þeir sátu báðir í svonefndri stjórnlaganefnd sem sá um forvinnu fyrir stjórnlagaráðið og lagði fram hugmyndir fyrir það. Fyrr á árinu birtu þeir umsögn um frumvarp stjórnlagaráðs. Þar kom fram að þeir teldu stjórnlagaráðið hafa fengið of stuttan tíma til að vinna frumvarpið, það væri því ófullkomið og bæri að skoða sem eitt skref af fleirum í átt til endurskoðunar stjórnarskrárinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×