Innlent

Alvarlegum vanskilum heldur áfram að fjölga

Höskuldur Kári Schram skrifar
Tæplega tuttugu og sjö þúsund einstaklingar eru í alvarlegum vanskilum og hafa þeir aldrei verið fleiri. Helmingi fleiri fasteignir voru seldar á nauðungarsölu í Reykjavík á fyrstu sex mánuðum þessa árs miðað við sama tíma fyrra.

Allt frá hruni hefur þeim einstaklingum sem eru í alvarlegum vanskilum fjölgað statt og stöðugt. Ekkert lát er á þessari þróun samkvæmt tölum Creditinfo.

Í ársbyrjun 2008 voru tæplega sextán þúsund í alvarlegum vanskilum. Ári síðar var talan kominn upp í tæplega átján þúsund og rúmlega 20 þúsund í ársbyrjun 2010. Í janúar 2011 voru 23 þúsund og þrjú hundruð einstaklingar í alvarlegum vanskilum. Í dag eru þeir rúmlega 26 þúsund og sex hundruð.

Þetta þýðir að tíundi hver fjárráða maður á Íslandi er í alvarlegum vanskilum og hefur ástandið aldrei verið jafn slæmt.

Mun fleiri fasteignir voru seldar á nauðungarsölu hjá sýslumanninum í Reykjavík á fyrstu sex mánuðum þessa árs miðað við sama tímabil í fyrr. Í ár voru 243 fasteignir seldar á nauðungarsölu en þær voru 169 í fyrra. Rétt er að taka fram í þessum tölum er bæði um að ræða heimili og atvinnuhúsnæði.

Creditinfo telur verulega líkur á því að uppboðsmálum muni fjölga á næstu mánuðum - miðað við þann fjölda sem nú er í alvarlegum vanskilum - og að nauðungarsölur nái hámarki næsta vor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×