Innlent

Nítugasta kóngulóategundin gerir sig heimakomna

Karen Kjartansdóttir skrifar
Nýjasti landnemi Íslands er langleggjuð, vel hærð, fim og afskaplega falleg að sögn meindýraeyðis. Hann telur að með þessum landnema megi gera ráð fyrir því að finna megi 90 kóngulótegundir á landinu.

Þessar kóngulær fann hann Birgir Eiríksson skrúðgarðyrkjumeistari við störf sín fyrir skömmu. Félagi hans Guðmundur Óli Scheving, meindýraeyðir til 30 ára, sem skrifað hefur bókina Upplýsingar og fróðleikur um meindýr og varnir telur að þarna gætið verið komin enn ein tegund kóngulóa sú nítugasta í fánu landsins.

Hvað getur þú sagt mér um þessa skepnu? „Hún er nú með þeim stærri sem ég hef séð," segir Guðmundur. „Ég ætlaði að fá greiningu á henni í morgun en allir okkar vísindamenn eru í fríi þannig ég veit ekki nákvæmlega hvað þetta er en hér á landi eru bara 89 tegundir af kóngulóm og því er þessi sennilega sú nítugasta. Ég held að þetta sé alveg ný tegund."

En hvernig líst þér á þessa? „Þetta er mjög fallegt dýr, ég ætla bara að vernda hana. Ég hugsa að ég fari með hana upp í Náttúrufræðistofnun og gefi hana þanngað."

Skrúðgarðyrkjumeistarinn hefur komist í tæri við ýmis skriðdýr í starfi sínu en líst fremur illa á þessa „hlussu" eins og hann orðar það. Honum þykir hún þó sú tilkomumesta sem hann hefur fundið.

„Þessi var miklu stærri en þær sem maður hafði séð áður og miklu öflugri," segir Birgir Eiríksson, skrúðgarðyrkjufræðingur. „Ef maður lýsir henni aðeins þá er hún með miklu sterklegri fætur og miklu stærri kjaft."

Já, þeir kumpánar áttu ekki orð yfir því hve glæsilegt þessi dýr voru en eini vandinn var hver óttasleginn kvikmyndatökumaðurinn var. Ekki tókst að heilla hann og ekki tók hann þátt í að finna þær aftur þegar ein þeirra reyndi að stinga af á harðaspretti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×