Innlent

Húkkarinn í kvöld og fólk streymir til Vestmannaeyja

Vestmannaeyjar.
Vestmannaeyjar.
„Við erum afar ánægð með stöðuna. Veðrið leikur við okkur og það er það eina sem maður fær ekki við ráðið." Þetta segir Páll Scheving Ingvarsson, formaður Þjóðhátíðarnefndar. Fjöldi fólks hefur lagt leið sína til Vestmannaeyja í dag.

Húkkaraballið hefst á miðnætti í kvöld og sem fyrr er mikil eftirvænting meðal þjóðhátíðargesta.

„Við finnum fyrir miklum áhuga meðal fólks," segir Páll. „Fólk vill koma í dalinn. Þá hafa dagsferðirnar okkar á laugardag og sunnudag verið vinsælar. Þetta er nýjung sem við erum að bjóða upp á og hún virðist falla vel í kramið hjá fólki."

Herjólfur.
Stöðugur straumur fólks er nú til Vestmannaeyja. Gunnlaugur Grettisson, rekstrarstjóri Herjólfs, segir skipið hafa verið þéttsetið í dag.

„Þetta er búið að vera algjörlega frábært," segir Gunnlaugur. „Við erum búnir að sigla þessar hefðbundnu fimm ferðir okkar í dag og farþegafjöldi hefur verið mikill."

Herjólfur fer tvær ferðir frá Landeyjarhöfn í nótt og enn eru laus sæti. Það er hins vegar uppselt með Herjólfi á morgun. „Það stefnir í stóra þjóðhátíð," segir Gunnlaugur. „Þetta er þriðja árið sem við hjá Eimskip siglum í Landeyjarhöfn í kringum þjóðhátíð. Við sjáum það nú að við munum geta tekist á við öll hugsanleg vandamál. Siglingar hafa gengið áfallalaust fyrir sig og farþegar eru til fyrirmyndar."

Þá bendir Gunnlaugur á að ströng löggæsla sé í kringum ferðir Herjólfs. Sýslumaðurinn á Hvolsvelli sér um fíkniefnaeftirlit við Landeyjarhöfn á meðan lögreglan í Vestmannaeyjum annast eftirlit á hinum endanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×