Innlent

Óvenjuleg fyrirhyggja í vínkaupum fyrir helgina

BBI skrifar
Á gamlársdegi, Þorláksmessu og föstudeginum fyrir verslunarmannahelgi selst meira vín en venjulega.
Á gamlársdegi, Þorláksmessu og föstudeginum fyrir verslunarmannahelgi selst meira vín en venjulega. Mynd/GVA
Veigamikill þáttur í tilstandi Íslendinga um verslunarmannahelgina er að drekka vín - mikið vín. Sala áfengis í vínbúðum landsins rýkur fram úr öllu valdi þannig að stundum hefur þurft að hleypa fólki inn í hollum. Venjulega er talað um að föstudagurinn fyrir verslunarmannahelgina sé einn af þremur stærstu dögum ársins í vínsölu.

Í ár virðast viðskiptavinir óvenju fyrirhyggjusamir og versla fyrr í vikunni en áður. Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri, segir að þó veðrið geti haft eitthvað að segja um þessa fyrirhyggju landsmanna muni líklega mest um það að útborgunardagur var á miðvikudaginn síðasta. Hingað til hefur selst töluvert meira í vikunni en á sama tíma í fyrra.

Mynd/átvr
Á grafinu hér til hliðar má sjá hve mikið salan í vikunni hefur aukist milli ára. Alls lögðu 25% fleiri leið sína í vínbúð fyrstu fjóra daga vikunnar en í fyrra. Sala á öllum víntegundum eykst milli ára en mest sláandi er aukningin í sölu ávaxtavína, en þar er salan 140% meiri en í fyrra.

Sigrún segir að í dag verði fullmannað í öllum vínbúðum landsins. „Það er svosem ekkert mikið meira en venjulega," segir hún en býst við að starfsfólkið verði óvenjulega mikið á tánum. Hún býst við að þó margir hafi eflaust tryggt sér áfengisbyrgðir í vikunni verði dagurinn í dag stór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×