Innlent

Tillaga Sivjar um forvirkar rannsóknarheimildar verður lögð fram á ný

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Frumvarp innanríkisráðherra um forvirkar rannsóknarheimildir dagaði uppi í þinginu en allir umsagnaraðilar lögðust gegn því, þar með talin lögreglan sjálf sem sagði frumvarpið í engu bæta við gildandi heimildir. Tillaga Sivjar Friðleifsdóttur um sama mál þótti betri en var ekki samþykkt vegna málþófs.

Meirihluti allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis ákvað í júní sl. að hætta við frumvarp Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra um forvirkar rannsóknarheimildir þar sem umsagnir sem bárust um það voru nær allar neikvæðar.

Til dæmis sagði Lögmannafélagið orðrétt að það væri mat Laganefndar Lögmannafélagsins „að frumvarpið vinni í raun gegn tilgangi sínum."

Meirihluti nefndarinnar ákvað frekar að styðja þingsályktunartillögu Sivjar Friðleifsdóttur alþingismanns um sama efni.

Það sem þykir kannski vandræðalegt fyrir ráðherrann er að frumvarp hans þótti að mati allra umsagnaraðila og þar er lögreglan sjálf meðtalin, ekki hafa í för með sér neinar nýjar lagaheimildir sem komið gætu að gagni. Þá var frumvarpið talið gefa tilefni til að álykta að um afturför væri að ræða frá núverandi réttarástandi.

Tillaga Sivjar var samþykkt í allsherjar- og menntamálanefnd en hún gengur út á að ráðherra eigi að lögfesta svipaðar heimildir og á Norðurlöndunum þegar forvirkar rannsóknarheimildir eru annars vegar. Þingsályktunartillagan fór hins vegar aldrei í gegn vegna málþófs í þinginu og tímaskorts.

Siv sagði í samtali við fréttastofu að hún myndi endurflytja tillöguna á næsta þingi og vonast til þess að hún yrði samþykkt hið fyrsta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×