Innlent

Time fer mjög lofsamlegum orðum um strákana okkar

Bandaríska tímaritið Time fer mjög lofsamlegum orðum um strákana okkar eða íslenska landsliðið í handbolta á Ólympíuleikunum.

Í grein Time um liðið segir m.a. að ekkert lið á leikunum hafi haft jafnmikil áhrif á þjóð sína og þetta handboltalandslið. Er þar vísað til að liðið náði að vinna silfurverðlaunin á síðustu Ólympíuleikunum í  Bejing en þar hafi verið um stærsta íþróttasigur að ræða í sögu Íslands. 

Með silfurverðlaununum varð Ísland fámennasta þjóðin í sögu Ólympíuleikana til að vinna til verðlauna í hópíþrótt á leikunum.

Time segir að með árangri sínum hafi liðið átt stóran þátt í þeim jákvæðu umskiptum sem urðu á Íslandi í kjölfar kreppunnar árið 2008.

Time ræðir við Ólaf Ragnar Grímsson forseta Íslands sem segir m.a. að í augum Íslendinga sé handbolti ekki aðeins íþrótt, heldur kjarni þjóðarsálarinnar. Ólafur Ragnar hvetur jafnframt Bandaríkjamenn til að iðka handbolta enda sé þetta skemmtileg íþróttagrein.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×