Innlent

Jórunn lærir móðurmálið með undraverðum árangri

Hugrún Halldórsdóttir skrifar
Þrátt fyrir að hafa byrjað að læra íslensku fyrir þremur vikum hefur Jórunn Hjaltadóttir, átján ára gömul stúlka búsett í Noregi, náð ótrúlega góðum tökum á málinu. En framfarir hennar eru ekki einsdæmi.

Jórunn hefur á þessum tíma lært íslensku í átta tíma á dag og var að sjálfsögðu að læra þegar við hittum hana um hádegisbil.

„Pabbi minn er frá Íslandi og mamma mín er frá Noregi," segir Jórunn. Hefur íslenska verið töluð heima hjá þér? „Nei, aldrei. Ég vil tala íslensku, mér finnst það mjög fallegt tungumál."

Jórunn situr námskeið tungumálaskólans EU ásamt fjörutíu öðrum krökkum sem búsettir eru víðsvegar um heiminn, en nemendafjöldinn hefur fjórfaldast frá því í fyrra. Flestir eru tvítyngdir en sumir tala þrjú eða jafnvel fjögur tungumál.

„Foreldrar eru bara mjög ánægðir," segir Gígja Svavarsdóttir, skólastjóri Tungumálaskóla EU. „Það sem gerist alltaf er það að þar sem þú býrð, börnin vilja vera eins. Þannig að, að tala íslensku í útlöndum passar ekki þannig að börn fara oft á svara tungumálum á því tungumáli sem er talað en hérna, þau hafa bara rokið af stað."

Og kennslan er einstaklega lífleg.

„Ef það er erfitt orð þá talar hún um orðið á íslensku, við erum að leika mikið líka, spila spil, fara í göngutúr og í bæinn."

Ætlarðu að halda íslenskunni við þegar þú ferð út og tala íslensku við pabba þinn? „Já, ég held það," segir Jórunn. „Pabbi kemur á fimmtudaginn og þá ætla ég að tala íslensku við hann allan tímann."

„Þetta er svo gaman, þau eru svo ánægð með þetta," segir Gígja. „Þau eru stolt af því að vera Íslendingar og tala sína íslensku þó þau búi ekki hérna og það er auðvitað mjög mikilvægt."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×