Innlent

Áfengisneysla á Hrafnistu engin nýlunda

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Guðmundur Hallvarðsson er stjórnarformaður Hrafnistu.
Guðmundur Hallvarðsson er stjórnarformaður Hrafnistu. mynd/ heiða.
Það er engin nýlunda að heimilismenn á Hrafnistu geti fengið sér áfengi þar, segir Guðmundur Hallvarðsson, stjórnarformaður Hrafnistuheimilanna. Hann sagði í samtali við Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag að um árabil hafi fólk getað nálgast áfengi á Hrafnistu.

„Þetta er búið að vera árin tvenn. Það hafa verið haustfagnaðir, þorrablót og fleiri stærri skemmtanir. Á veturna erum við með pöbbakvöld fyrir heimilismenn. Þannig að það er nú búið að vera í nokkur ár að boðið hefur verið upp á annahvort bjór eða bjór og léttvín," segir Guðmundur.

„Barinn er búinn að vera í þarna mörg, mörg ár. Hann er sérstakur fyrir það að hann er á hjólum. Þannig að stundum hefur kannski þurft að fara með barinn til viðskiptavinarins," segir Guðmundur. Starfsfólkið hafi haft eftirlit með því.

Það sem breytist núna sé að fólk geti héreftir keypt rauðvín og bjór með matnum ef það hefur áhuga á. Þá verði gerðar breytingar á matsalnum. Auk þess að barinn verði gerður betri verði sett þarna upp bókakaffiaðstaða og sérstakt leikhorn fyrir börn.

„Þeir eru ekkert ósáttir við það að fá betri þjónustu," segir Guðmundur þegar hann er aðspurður um það hvort heimilisfólk sé sátt við breytingarnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×