Innlent

Verð á metani hækkaði um 18 krónur um helgina

Verð á metaneldsneyti hækkaði um átján krónur á rúmmetran um helgina. Það er meðal annars til þess að Sorpa geti ráðist í framkvæmdir til að framleiða meira metaneldsneyti svo hægt sé að anna eftirspurn.

Verð á metaneldsneyti hækkaði um átján krónur um helgina. Rúmmetrin kostar nú hundrað fjörtíu og níu krónur en ekki hundrað þrjátíu og eina. Ástæða hækkunarinnar er nýr samningur á milli N1s og Sorpu, sem framleiðir metaneldsneytið.

Margir metanbíleigendur eru ósáttir með hækkunina enda hefur verðið á eldsneytinu hækkað töluvert upp á síðkastið.

Ástæða þess að Sorpa hækkaði verðið á eldsneytinu er hins vegar sú að eftirspurnin er orðin svo mikil að framleiða þarf meira eldsneyti. Sorpa er eini framleiðandinn á metaneldsneyti á Íslandi, N1 er eins og stendur eini söluaðilinn.

Metangasið er fengið neðan úr jörðinni úr gömlum sorphaugum, þaðan er því dælt til vinnslu þar sem það er hreinsað og annað hvort sett á tanka eða dælt á bensínstöð.

Samkvæmt upplýsingum frá Sorpu þarf nú að fjölga borholum en þær eru nú um það bil hundrað og tuttugu talsins. Ætla má að holurnar verði um það bil tvö hundruð. Þá þarf að bæta við auka dælu við vinnslustöðina til að dæla gasinu upp úr haugunum og jafnframt þarf að bæta við aukahreinsibúnaði til að vinna metaneldsneytið úr hauggasinu sem dælt er upp. Allt þetta þarf að gera til að anna eftirspurn, sem hefur stóraukist að undanförnu.

Samkvæmt upplýsingum frá Sorpu þurfti að hækka verðið á metaneldsneytinu til þess að fjármagna kaup og uppsetningu á þessum nýja búnaði svo hægt sé að framleiða meira eldsneyti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×