Innlent

Þrír teknir eftir þjófnað úr matvöruverslun

Lögreglan hafði í nógu að snúast í gærkvöldi og í nótt en um kvöldmatarleytið barst henni tilkynning um að þrír menn hefðu stolið úr matvöruverslun í austurborginni.

Lögreglan þekkti einn þeirra á myndbandsupptöku verslunarinnar og var mætt heim til hans áður en sá sami gat gætt sér á varningnum. Svo heppilega vildi til að hinir tveir voru á staðnum þegar lögreglan mætti á svæðið og sló hún því þrjár flugur í einu höggi ef svo mætti að orði komast. Mennirnir viðurkenndu brot sín og voru lausir eftir skýrslutöku á stöðinni.

Og um hálfþrjúleytið stöðvaði lögreglan mann á bifreið en sá var ekki alveg með á hreinu hvort hann væri í raun með ökuréttindi. Lögreglan var svo vinsamleg að greiða úr þeirri flækju með því að fletta honum upp í ökuskírteinaskrá. Kom í ljós að hann var í raun ekki með réttindi eins og manninn reyndar minnti.

Ökumanni varð tvísaga um ferðir sínar og fékk lögreglan heimild til að leita í bílnum. Fundust við leitina munir sem voru haldlagðir en grunur lék á að um þýfi væri að ræða. Maðurinn var látinn laus eftir skýrslutöku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×