Innlent

Kveikti eld í sumarbústaðalandi með gasbrennara

Sinueldur á Snæfellsnesi. Myndin er úr safni.
Sinueldur á Snæfellsnesi. Myndin er úr safni.
Slökkvilið Borgarbyggðar þurfti að sinna eldsvoða sem logaði í trjálundi í sumarbústaðahverfi í landi Stóra-Fjalls um klukkan hálf fimm í gær.

Í samtali við Skessuhorn segir slökkviliðsstjórinn að nær öruggt er að um íkveikju hafi verið að ræða. Svo virðist sem einhver hafi notað gasbrennara við að brenna gras meðfram heimreið að sumarbústað einum sem umvafinn er þéttum gróðri.

Ekki vildi betur til en að eldurinn læsti sig í nærliggjandi trjágróðri, og í þurrkunum sem nú geisar, þá tók það ekki eldinn langan tíma að breiða úr sér. Það voru hinsvegar nágrannar sem hringdu á slökkviliðið en ekki sá sem varð valdur að eldinum.

Enginn var á staðnum þegar slökkviliðið mætti á vettvang og var sumarbústaðurinn við lundinn sem brann mannlaus. Lögreglan vinnur nú að rannsókn málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×