Innlent

Stefnir í Íslandsmet í Laugavegshlaupinu

Hugrún Halldórsdóttir skrifar
Mynd úr safni.
Mynd úr safni.
Allt stefnir í að Íslandsmet verði slegið í Laugavegshlaupinu í dag en nú rétt fyrir hádegi voru fremstu hlaupararnir hálfnaðir með leiðina.

Níu stiga hiti og logn var í Landmannalaugum þegar þrjúhundruð og einn hlaupari lagði af stað þaðan klukkan níu í morgun með það að markamiði að hlaupa Laugaveginn um fimmtíu og fimm kílómetra leið inn í Þórsmörk. Hiti fer hækkandi með deginum og er 19 gráðum spáð í Húsadal.

„Mjög gott hlaupaveður í byrjun en þetta verður hlaupurunum erfitt að hlaupa í svona miklum hita þannig að fólk þarf að passa sig mjög vel að drekka vel á leiðinni, þetta er náttúrulega mjög erfið leið og krefjandi," segir Svava Oddný Ásgeirsdóttir, hlaupstjóri. Nú rétt fyrir hádegi voru fremstu hlaupararnir komnir fram hjá Álftavatni, eða hálfnaðir með hlaupið.

„Og á alveg mettíma bæði fyrsti karlmaður og fyrsta kona. Fyrsta konan sem fór framhjá Álftavatni heitir Angela og er frá Bretlandi. Hún var í Álftavatni á 2 klukkustundum og 5 mínútum sem er alveg frábær tími. Björn Margeirsson, íslenskur maraþonmeistari, er líka að slá öll met. Hann var á 1 klukkustund og 50 mínútum í Álftavatni," segir Svava.

„Og miðað við þetta þá er metið í hættu í karlaflokki, að það verði bara 4 tímar og 10 til 20 mínútur. Það verður spennandi."

Og það stefnir í að fleiri met verði slegin í dag því fjöldi erlendra þátttakenda hefur aldrei verið meiri.

„Það var mikil og skemmtileg stemning í morgun. Það var nafnakall og það voru mörg þjóðerni á svæðinu, það voru allir mjög glaðir og spenntir fyrir þessu ævintýri," segir Svava Oddný Ásgeirsdóttir, Hlaupstjóri Laugavegshlaupsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×