Innlent

Sól og partí á Eistnaflugi

BBI skrifar
Af hátíðinni í gær.
Af hátíðinni í gær. Mynd/GRV
Um þrettán hundruð manns eru nú saman komnir á tónlistarhátíðinni Eistnaflugi á Neskaupstað að mati lögreglu. Stefán Magnússon, framkvæmdastjóri hátíðarinnar segir framúrskarandi stemningu á svæðinu og veðrið með eindæmum gott. „Hér er sól og partí," segir hann.

Hátíðin hófst á miðvikudaginn var með nokkurs konar móttöku, fyrstu tónleikarnir voru á fimmtudaginn og hátíðin klárast í kvöld.

Talsverður erill var hjá lögreglu á svæðinu síðastliðna nótt og m.a. komu upp 12 minniháttar fíkniefnamál. Ekki er laust við það fari í taugarnar á Stefáni að þvílíkar staðreyndir séu sífellt blásnar upp í fjölmiðlum. „Auðvitað eru fíkniefnamál þegar yfir þúsund ungmenni koma saman. Það er alveg sama hvað er um að vera á Íslandi, allt gengur ótrúlega vel en svo eru einhverjir örfáir að reykja gras úti í horni og þá er það fréttin," segir Stefán stórhneykslaður og segist leiður á þeirri sífelldu neikvæðni.

Enn eru einhverjir dagspassar eftir á hátíðina svo fólk sem er á svæðinu gæti skellt sér á tónleikana í kvöld sem standa til fimm í nótt. „Það er tónlistarveisla hérna í dag," segir Stefán.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×