Innlent

Hjálpa Íslendingum að kynnast landinu sínu

BBI skrifar
Skjáskot af síðunni.
Skjáskot af síðunni. Mynd/islandermedetta.is
Heimasíðan Ísland er með'etta opnaði á fimmtudaginn var. Síðan er liður í átaki sem hvetja á Íslendinga til að ferðast innanlands.

„Það eru svo margir sem hafa ekkert ferðast um landið og vita ekkert hvaða perlur eru hérna. Þetta á að hjálpa fólki að kynnast landinu og finna þá upplifun sem það er að leita eftir," segir Gústaf Gústafsson, forstöðumaður Markaðsstofu Vestfjarða.

Á síðunni birtast áhugaverðustu ferðamannastaðir og helstu perlur hvers landshluta á einföldu yfirlitskorti. Úrvalið sem birtist er fjölbreytt, allt frá sundlaugum og upplýsingamiðstöðvum til fuglabjarga og jöklahella. Auðvelt er að flokka ábendingar á margan hátt, t.d. eftir landshlutum.

Síðan opnaði á fimmtudaginn og hefur hlotið ágætar viðtökur nú þegar. „Fólk sem heimsótti síðuna fyrst eyddi að meðaltali yfir fjórum mínútum á henni, sem er mjög gott," segir Gústaf. En síðan er í raun ekki fullmótuð. Enn er bara lítið brot þeirra ábendinga sem eiga að vera á síðunni komið inn. „Við vorum bara að senda ferðaþjónustuaðilum aðgangsupplýsingar nú fyrir helgi," segir Gústaf. „Þeir verða svo að setja sjálfir inn upplýsingar um sína þjónustu."

Síðan er langtímaverkefni og stefnan er að safna þar saman öllum upplýsingum um ferðamöguleika í hverjum landshluta. Íslendingar geta því kynnt sér nákvæmlega hvað er í boði í hverjum landshluta á einfaldan hátt áður en þeir fara í fríið.

Ferðamálastofa, markaðsstofur allra landshluta og Ferðaþjónusta bænda standa að síðunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×