Innlent

Réði niðurlögum eldsvoða með handslökkvitæki

BBI skrifar
Mikill reykur var í íbúðinni. Mynd úr safni.
Mikill reykur var í íbúðinni. Mynd úr safni.
Snör handtök heimilisföður á Reyðarfirði í morgun skiptu sköpum þegar eldur kom upp í íbúðarhúsnæði. Þrír voru inni í húsinu þegar eldurinn kviknaði. Fimmtán manna slökkvilið var sent af stað en þegar það kom á svæðið, um 7 mínútum eftir útkallið, hafði húsráðandi slökkt eldinn með handslökkvitæki.

Eldurinn kom upp inni á baðherbergi, en þar var lítið barn læst inni. Heimilisfaðirinn brást skjótt við, braut upp baðherbergisdyrnar, kom konu sinni og barni út úr íbúðinni og réðist svo gegn logunum með handslökkvitæki að vopni. Eldurinn hafði ekki náð að breiðast út og því gekk vel að slökkva hann.

Maðurinn var sendur á sjúkrahúsið á Neskaupstað vegna gruns um reykeitrun. Nánari upplýsingar hafa ekki fengist um líðan hans. Kona hans og barn voru send á heilsugæsluna á Eskifirði til öryggis.

Mikill reykur var í íbúðinni sem eflaust hefur valdið einhverju tjóni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×