Innlent

Magn frjókorna í hámarki

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Grasfrjó eru nú í hámarki samkvæmt mælingum Náttúrufræðistofnunar, fólki með ofnæmi til mikils ama. Lyfsali segir marga rugla saman kvefi og ofnæmi á þessum árstíma.

Brakandi þurrkur og sólríkir dagar hafa gert aðstæður ákjósanlegar fyrir gróður og gras til að spretta og dreifa frjókornum sínum á víð og dreif. Þessar sömu aðstæður gera fólki með frjóofnæmi erfitt fyrir og mörgum líður betur að halda sig innandyra. Um þessar mundir eru grasfrjókorn í hámarki eins og glögglega má sjá á þessarri mælingu Náttúrufræðistofnunar þar sem frjótala nær algjöru hámarki það sem af er sumri og hefur verið nóg að gera í apótekum landsins við sölu á ofnæmislyfjum.

„Það ber svolítið á því að fólk áttar sig ekki á því að það er með ofnæmi, heldur það að það sé með kvef og reynir að kaupa lyf við kvefi og þá reynum við að spyrja það út í málið og leiðbeina þeim," segir Aðalsteinn Jens Loftsson, lyfjafræðingur og lyfsali.

Auðvelt sé hins vegar að greina á milli hvað er ofnæmi og hvað er gamla góða kvefið.

„Ef ofnæmi er þá er nefrennslið glært en ekki litað og fylgir því einhver kláði í augum eða munnkoki," segir Aðalsteinn.

Hvernig getur fólk sannreynt sig? „Einfaldasta leiðin er annað hvort að fara til læknis eða prófa að kaupa lítinn pakka með ofnæmistöflum og þá fær það yfirleitt betri líðan á svona hálftíma til 2-3 tímum."

Hann segir líka að ef fólk fer í sturtu eða sund og líður betur sé það líklegast að glíma við frjóofnæmi, þá sé það gott fyrir fólk sem þjáist af miklu ofnæmi að fara í sturtu fyrir svefninn og skola þar með af sér frjókorn til dæmis úr hári sem annars setjast á koddann og geta gert ofnæmið enn verra morguninn eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×