Innlent

Vinna hafin við þriðja bindi sögu Akraness

BBI skrifar
Mynd/GVA
Samningar um að hefja vinnu við þriðja bindið af sögu Arkaness voru samþykktir í bæjarráði Akraness í júní. Vinnan við þriðja bindi sögunnar er því hafin og sem fyrr sér Gunnlaugur Haraldsson um ritunina. Upphæðin sem samþykkt var fyrir þetta ár var 4,2 milljónir króna en í heild sinni er gert ráð fyrir að vinnan við bindið kosti 14 milljónir.

Einn fulltrúi bæjarráðs andmælti samningnum og bókaði mótmæli vegna fjárhagsstöðu Akranesskaupstaðar sem hann telur svo laka að ekki sé forsvaranlegt að eyða í þetta rit.

Fyrstu tvö bindi sögunnar komu út á síðasta ári og hlutu misjafnar móttökur. Páll Baldvin Baldvinsson, bókmenntafræðingur, hellti sér yfir þá sem stóðu að útgáfu hennar og bað þá að skammast sín í pistli í Fréttatímanum. Þar kemur fram að kostnaður við fyrstu tvö bindin hafi verið tæpar 120 milljónir króna. Þetta vill Hrönn Ríkarsdóttir, varaformaður bæjarráðs, ekki staðfesta en tekur undir að miklir fjármunir hafi farið í útgáfuna.

Er eitthvað vit í að halda þessari útgáfu áfram?

„Ég get með góðri samvisku sagt bæði já og nei. Já vegna þess að það er búið að eyða svo miklum fjármunum í þetta verkefni nú þegar að það er verjandi að klára 19. öldina. Nei vegna þess að bærinn hefur ekki úr meiri fjármunum að moða en raun ber vitni," segir Hrönn.

Hrönn tekur fram að í samþykkt bæjarráðs felist ekki endanlegur samningur um gerð bindisins og því sé ekki sjálfgefið að Gunnlaugur fái að klára verkið.

„Í fjárhagsáætlun fyrir þetta ár voru áætlaðir fjármunir fyrir þetta bindi. Það er bara verið að samþykkja fjárveitinguna sem lá fyrir í núverandi fjárhagsáætlun," segir Hrönn. Framhaldið ráðist hins vegar að því hvort bæjarstjórn ákveður frekari fjárveitingar næstu ár.

Hún telur að með því að samþykkja að vinna að þriðja bindinu verði hafin hafi bæjarráð ekki skuldbundið bæinn til að klára hana og það sé alfarið undir bæjarstjórn komið hverjar lyktir málsins verða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×