Innlent

Konan formlega tekin við af Karli

BBI skrifar
Agnes tók við lyklavöldum af Karli Sigurbjörnssyni, fráfarandi biskupi, á miðvikudaginn var.
Agnes tók við lyklavöldum af Karli Sigurbjörnssyni, fráfarandi biskupi, á miðvikudaginn var. mynd/ gva.
Agnes M. Sigurðardóttir tók formlega við starfi biskups Íslands í dag. Dagurinn byrjaði klukkan níu á Biskupsstofu. Fyrsta formlega verkefnið var innanhúss helgistund.

„Við sungum tvo sálma, lásum aðeins úr Biblíunni og fórum með bæn," segir Agnes en starfsmenn Biskupsstofu tóku þátt í helgistundinni.

Dagurinn var að sögn Agnesar ánægjulegur, fór að mestu í viðtöl bæði við starfsfólk Biskupsstofu og fólk utan úr bæ. Agnes kann vel við sig í þessu nýja starfi. Hún vann áður á Biskupsstofu og er því kunnug starfinu þar en nú eru 26 ár síðan og stofan komin í nýtt húsnæði og nýtt starfsfólk komið til vinnu.

Ýmislegt er á döfinni hjá hinum nývígða biskupi Íslands í vikunni. Á miðvikudaginn verða guðfræðingar og djáknar sem hafa verið í starfsþjálfun hjá kirkjunni útskrifaðir við hátíðlega athöfn í Dómkirkjunni. Næsta sunnudag mun hún vígja ungan mann til prests. Auk þess bíður hennar fjöldi viðtala.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×