Innlent

Höfðu ekki hugmynd um risasmyglmál

BBI skrifar
Forsvarsmenn Eimskip vissu ekki af umfangsmikilli rannsókn lögreglu á smygli starfsmanna Eimskip. „Við vitum aldrei af rannsóknum fyrr en mennirnir eru teknir," segir Ólafur William Hand, upplýsingafulltrúi Eimskip. Hann segir félagið hins vegar vinna náið með lögregluyfirvöldum og Tollgæslunni eftir að tilkynnt er um málið og veita allar upplýsingar sem óskað er eftir.

Þrír starfsmenn Eimskip voru handteknir á sunnudag vegna umfangsmikils smyglmáls. Þeim verður öllum vikið frá störfum. „Innan veggja Eimskip er ekki tekið léttvægt á smyglmálum," segir Ólafur. Fyrirtækið starfar eftir svokallaðri non-tolerant stefnu, þ.e. engan veginn er liðið að skipverjar noti ferðirnar til að smygla.

Málið sem nú kom upp er afar umfangsmikið, til að mynda er um að ræða tíu þúsund steratöflur. Að sögn Ólafs koma slík mál illu heilli upp með reglulegu millibili. „Þetta gerist kannski með svona tveggja ára millibili," segir hann. Starfsmennirnir sem um ræðir höfðu allir unnið hjá Eimskip í einhver ár.

„Það væri óskandi að menn hugsuðu um afleiðingarnar þegar þeir fara út í svona vitleysu. Menn missa starfið sitt, menn missa lifibrauðið sitt og menn eru komnir á sakaskrá. Þetta er miklu meira en að segja það og það er sorglegt fyrir fjölskyldumenn að lenda í svona rugli," segir Ólafur


Tengdar fréttir

Tíu þúsund steratöflur teknar

Þrír karlar voru handteknir á sunnudag í aðgerðum lögreglunnar í tengslum við rannsókn hennar á umfangsmiklu smygli. Lagt var hald á áfengi, tóbak og mikið magn af töflum, en talið er að um steratöflur sé að ræða. Töflurnar eru um 10 þúsund talsins. Lögreglan tók einnig í sína vörslu 200 ambúlur og verulagt magn af sterum í vökvaformi. Þremenningarnir, sem allir eru skipverjar hjá Eimskipum, hafa játað aðild sína að málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×