Innlent

Boða til blaðamannafundar vegna njósna

BBI skrifar
Iceland Express hefur boðað til fréttamannafundar vegna „alvarlegra en jafnframt fáránlegra ásakana" um ólöglegar hleranir, eftir því sem segir í tilkynningu. Fundurinn fer fram kl 15:00 í höfuðstöðvum fyrirtækisins við Ármúla 7.

Hið nýstofnaða flugfélag Wow Air og KFS, þjónustuaðili á Keflavíkurflugvelli, hafa kært Iceland Express fyrir njósnir. Flugfélagið á að hafa stundað hleranir á svokallaðri tetra rás, sem Wow Air og KFS notuðu til samskipta sín á milli. Með hlerununum mátti komast að upplýsingum um farþegatölur, atvinnuleyndarmál og fleira sem snýr að starfsemi Wow Air og mögulega persónuupplýsingar farþega.

Í kærunni, sem fréttastofa Vísis hefur undir höndum, segir að rekstrarstjóri Iceland Express, Björn Vilberg Jónsson, hafi viðurkennt í samtali við starfsmann flugvallarins þann 18. júní að upplýsingar sem fengist hefðu með hlerununum hefðu verið sendar beint til aðaleiganda Iceland Express, Pálma Haraldssonar.

Í kærunni er talið einsýnt að Iceland Express hafi stundað hleranirnar í auðgunarskyni. Þeim er gefið að sök að hafa annað hvort hakkað sig inn á talstöðvartíðnina eða komist yfir talstöð frá KFS, þá með vafasömum hætti.

Njósnirnar eru í kærunni sagðar sérlega ófyrirleitnar þar sem Wow Air hefur nýverið hafið samkeppni við Iceland Express.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×